Þessi vefur heitir jafnræði.is og fjallar um jafnræðismál á milli trú- og lífsskoðnarfélaga í landinu út frá því hvernig ríkið veitir þeim fjármuni, lagaheimildir eða aðstoð að ýmsu tagi.
Það er klárt að ójafnræði ríkir í aðkomu ríkisins að trú- og lífsskoðunarfélögum; milli Þjóðkirkjunnar annarsvegar og annarra trú- og lífsskoðunarfélaga hinsvegar. Það ójafnræði er lagalegt, fjárhagslegt og félagslegt og þá er ekki verið að tala um það sem hægt er að útskýra með stærð Þjóðkirkjunnar einnar saman.
Stuðningur ríkisins til málaflokksins í heild þarf einnig að skoða í samhengi við úthlutun til málaflokka eins og heilbrigðismála og menntamála. Ábyrg forgangsröðun er grundvallaratriði í góðri fjármálastýringu ríkissjóðs, sameiginlegs sjóðs allra landsmanna. Fjárveitingar til starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga þurfa að vera í samræmi við mikilvægi þeirra í landinu. Er eitthvað af starfsemi þeirra nauðsyn? Er við hæfi að eitthvað af starfseminni sé studdur af ríkinu en ekki af aðilum félaganna sjálfra?
Á þessari vefsíðu verður birt efni til fróðleiks og innleggs í þeirri baráttu að koma á jafnræði trúfélaga og veraldlegra lífsskoðunarfélaga á Íslandi. Til grundvallar því þurfa félögin, stjórnvöld og landsmenn að eiga upplýsta þjóðfélagsumræðu og ákveða eftirfarandi:
- Veita lífsskoðunarfélög (trúarleg eða veraldleg) gildandi innlegg í þjóðfélagið í máli, starfi og athöfnum sínum þannig að réttlætanlegt og við hæfi sé að ríkið styðji með einhverjum hætti við starfsemi þeirra?
- Ef svarið er nei, þá ætti að leita leiða til að draga smám saman úr stuðningnum og hætta honum eftir tímabil aðlögunar.
Ef að svarið við spurningu 1 er já þá þarf að ákveða á hvaða hátt og hversu mikill þessi stuðningur ríkisins á að vera. Einnig þarf að ákveða hvaða skilyrði ríkið setur fyrir stuðningnum en nú þegar eru í lögum ákvæði í þá veru sem eru ekki virk í raun. Þetta má setja upp svona:
Ef svarið er já, þá er spurt: Hvaða skilyrði eiga félögin að uppfylla til þess að eiga rétt á því að fá þennan stuðning frá ríkinu.
Tillaga mín er:
A) Að þau félög sem uppfylla skilyrði um að koma fram við félagsmenn sína af fullum mannréttindum fá ríkisstyrk.
B) Að þau félög sem fá ríkisstyrk fái fjármuni fyrir þá þjónustu sem talist getur nauðsynleg þ.e. að halda útfarir. Aðrar athafnir eru ekki nauðsyn þó að þær geti haft talsvert menningarlegt gildi.
Öll félög, óháð því hvort að þau fái ríkisstyrk eiga að geta notað fjölmenningarlegt samkomuhús fyrir útfarir sem ríkið veitir og viðheldur í stærstu þéttbýliskjörnum landsins í öllu landsfjórðungum.
Undanfari
Jarðeignasöfnun og tíund. Staða þessara mála í dag er lituð og flækt af því að hér ríkti kristin kirkja einráð í 874 ár eða þar til að trúfrelsi var lögbundið með fyrstu stjórnarskránni 1874. Hún innheimti tíund og eignaðist 1/3 af jarðeignum landsins á fyrstu 2-3 öldum trúræðistímabils síns. Leiguliðar greiddu henni fyrir afnot og prestar nutu góðs af jarðahlunnindum. Þjóðin öll hafði greitt til hennar öldum saman og því á þjóðin tilkall til þessa kirkjusögulega arfs.
Laun í stað jarða. Þjóðkirkjan hafði svo æ minna að gera við jarðeignir utan prestssetra þegar fólkið streymdi úr sveit í bæi í byrjun 20. aldarinnar. Árið 1907 samdi Þjóðkirkjan við ríkið á afar hagstæðan máta fyrir hana þannig að prestar, prófastar, biskupar og biskupsstofa fengi laun fyrir þessar óhagstæðu jarðeignir. Sá samningur var endurgerður árið 1997.
Á öldinni voru einnig stofnaðir digrir sjóðir í vörslu ríkisisins til að styðja við kirkjuþing og byggingar kirkjunnar ásamt ýmsu öðru.
Sóknargjaldakerfið. Þjóðkirkjan rukkaði sín eigin félagsgjöld (sóknargjöld) en þegar líða tók á öldina fór innheimta þeirra að ganga illa þannig að árið 1987 var sett með lögum á fót kerfi sem tryggði Þjóðkirkjunni og (merkilegt nokk) öðrum skráðum trúfélögum ákveðna mánaðarlega upphæð (sóknargjald) fyrir hvern félaga 16 ára og eldri. Breytti engu þar um hvort að hluti félaga gæti ekki greitt tekjuskatt. Þessi tenging við ríkið þýddi því í raun að um skatt væri að ræða. Þá var gengið þannig frá kerfinu að ríkið héldi skráningu yfir félaga og nýburar yrðu skráðir strax í trúfélag móður. Þannig var allt frumkvæði tekið úr höndunum á fólki og hið sjálfgefna var aðild, en breyting á skráningu kostaði ferð á Þjóðskrá.
Breytingarnar árið 2013. Talsverðar framfarir urðu í lögum árið 2013 þegar Alþingi samþykkti að veraldleg lífsskoðunarfélög fengju rétt til skráningar rétt eins og trúarlegu félögin. Einnig var því breytt að nýfædd börn voru ekki lengur skráð beint í félag móður, heldur urðu báðir foreldrar að vera í sama félaginu til að barnið væri skráð beint, ellegar væri það skráð utan trú- og lífsskoðunarfélaga. Þetta hefur dregið stórlega úr sjálfkrafa skráningum í félögin, sérstaklega í Þjóðkirkjuna.
Fækkun í Þjóðkirkjunni. Þjóðkirkjan tryggði sér með þessu áframhaldandi yfirburðarstöðu en upp úr 1990 tók að úrskráningum að fjölga mikið hjá henni. Árið 1998 voru 89.9% skráðra í Þjóðkirkjuna, árið 2005 voru 85.4%, árið 2012 voru 76.8% og árið 2020 eru 63,5% skráð í hana. Þjóðkirkjan er ekki lengur þessi nánast eini stólpi í lífsskoðunum á landinu og ljóst er að fólk leitar annað í auknum mæli. Þessu flæði fjármuna til Þjóðkirkjunnar árlega þarf því að dreifa þannig að allir njóti, en ekki hún ein. Núverandi ríkisstjórn gaf þjóðkirkjunni viðbótarfé á alla þá mismunun sem er þegar í gangi. Það er í hróplegu ósamræmi við hlutfallslega fækkun fólks í henni.
Fjölgun utan trúfélaga. Á sama tíma hefur þeim sem eru utan trúfélaga og ótilgreindir fjölgað úr 3.35% árið 1998, 10.8% árið 2012 upp í 21,5% árið 2020. Allt þetta fólk nýtur hvorki sóknargjalda né annarra greiðslna frá ríkinu og frá 2009 var ákveðið með lagabreytingu að reiknuð sóknargjöld þess gengju ekki lengur til Háskóla Íslands. Þetta fólk þarf mögulega þjónustu trú- og lífsskoðunarfélaga við útför sína og hlutlaust húsnæði fyrir athafnirnar. Ríkið þarf því að koma að veitingu ákveðinnar grunnaðstöðu og mögulega veita ákveðna styrki til þeirra sem deyja utan trúfélaga eða eru ótilgreindir til útfararkostnaðar.